Áheitameti fagnað
14. september 2018

Uppskeruhátíð áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons 2018 fór fram í gær. Aðalstyrktaraðili hlaupsins, Íslandsbanki, bauð til hátíðarinnar í höfuðstöðvum sínum í Norðurturni. Á uppskeruhátíðinni komu saman fulltrúar góðgerðafélaga, hlauparar, starfsmenn og stuðningsaðilar til að fagna góðum árangri áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka sem fram fór á vefnum hlaupastyrkur.is.

Í ár söfnuðu hlauparar 156.926.358 krónum til 175 góðgerðafélaga sem er nýtt met og 32% hærri upphæð en safnaðist í fyrra. Heildarupphæð áheita sem hafa safnast í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka frá því áheitasöfnun hófst árið 2006 er nú komin í rúmlega 820 milljónir.

Þeir hlauparar sem söfnuðu mest fengu viðurkenningu á áheitahátíðinni í gær. Þá voru einnig veitt verðlaun til góðgerðafélaga sem voru með hvatningarstöð á hlaupaleiðinni, um var að ræða útdráttarverðlaun að upphæð 50 þúsund krónur sem komu í hlut Andartaks og Styrktarfélags Mikaels Smára.

Ólafur Darri Ólafsson safnaði mest allra einstaklinga, 1.372.624 krónur fyrir AHC samtökin. Vigdís Þórarinsdóttir safnaði næst mest, 1.172.298 krónur fyrir Arnar Jan og Thomas Orri styrktarfélag. Í þriðja sæti einstaklinga var Hilmir Vilberg Arnarsson sem safnaði 1.002.000 krónum fyrir CMT4A Styrktarsjóð Þórdísar. Sá hlaupahópur sem safnaði mestu var “Hlaupum fyrir Ágúst” en þau söfnuðu 8.363.100 krónum fyrir MND félagið á Íslandi.

Alls bárust 35.930 einstök áheit í söfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka á hlaupastyrkur.is í ár og var meðal upphæð áheita 4.368 krónur. Flest áheit fékk Telma Lind Stefánsdóttir, 298 talsins, en hún safnaði 943.000 krónum fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna.

Áheitin verða greidd til góðgerðafélaganna í lok október en þá berast síðustu greiðslur frá korta- og símafyrirtækjum. Öll áheit sem bárust fara beint til félaganna því Íslandsbanki greiðir allan kostnað við söfnunina. Þau félög sem fá mest í ár eru MND félagið á Íslandi 10,8 milljónir, Ljósið 10 milljónir og Alzheimersamtökin 8,2 milljónir. 137 af þeim 175 félögum sem safnað var fyrir fengu meira en 100.000 krónur í sinn hlut, 32 félög fengu meira en milljón og 6 félög meira en 5 milljónir.

Smellið hér til að skoða lista yfir öll góðgerðafélögin sem upphæðir söfnuðust til og hér til að skoða helstu tölfræði söfnunarinnar á hlaupastyrkur.is.

Á meðfylgjandi mynd eru þeir aðilar sem fengu viðurkenningu á áheitahátíðinni í ár ásamt formanni Íþróttabandalags Reykjavíkur og bankastjóra Íslandsbanka. Frá vinstri: Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR, Árný Þórarinsdóttir, systir Vigdísar sem safnaði næst mest einstaklinga, Hilmir Vilberg Arnarsson, sem var í 3.sæti einstaklinga, Stefán Stefánsson, faðir Telmu Lindar sem fékk flest áheit, Guðrún Gísladóttir úr hlaupahópnum "Hlaupum fyrir Ágúst" sem safnaði mest allra hlaupahópa, Lovísa Ósk sem tók við viðurkenningu fyrir hönd Ólafs Darra Ólafssonar sem safnaði mest allra einstaklinga, Heiðar Þór Jónsson frá góðgerðafélaginu Andartak sem fékk hvatningarverðlaun og Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

Deila þessari frétt
Samstarfsaðilar
  • Merki Korta

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með fimm stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, Miðnæturhlaup Suzuki í júní, Norðurljósahlaup Orkusölunnar í febrúar og Reykjavíkurleikar í janúar.