Gott að vita
13. ágúst 2018

Forskráningu í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2018 lýkur fimmtudaginn 16.ágúst klukkan 13:00. Á sama tíma loka „mínar síður“ þar sem hægt er að breyta ýmsum stillingum varðandi skráningu í hlaupið. Til að skrá þig inn á „mínar síður“ notar þú kennitöluna þína og lykilorðið sem þú fékkst sent í tölvupósti við skráningu. Hér er hægt að fá sent nýtt lykilorð á skráð netfang.

SMS úrslit

Stuttu eftir að þú kemur í mark á laugardaginn sendum við sms skilaboð í farsímanúmerið sem þú skráðir. Skilaboðin munu innihalda óstaðfestan flögutíma þinn í hlaupinu. Staðfest úrslit munu síðan birtast á rmi.is eigi síðar en kl.17:00 á hlaupdag. Ef þú vilt kanna hvort að þitt númer sé rétt skráð skaltu fara inn á „mínar síður“ fyrir kl.13 á fimmtudag. Athugaðu að aðeins er hægt að skrá eitt farsímanúmer en það þarf ekki að vera þitt, má líka vera hjá aðstandanda sem bíður spenntur á hliðarlínunni. Ef um er að ræða farsímanúmer sem er skráð erlendis þarf það að vera skráð eins og þú værir að hringja í númerið frá Íslandi þ.e. með 00 (núll núll) og landkóða fyrir framan.   

Sveitakeppni

Í maraþoni, hálfmaraþoni og 10 km hlaupi er boðið upp á fjögurra manna sveitakeppni. Hægt að mynda þrjár mismunandi tegundir af sveitum: kvennasveit, karlasveit og blandaða sveit. Fjórir þátttakendur þurfa að vera í hverri sveit og gildir samanlagður tími í úrslitum. Skráning í sveitakeppni fer fram á  „mínum síðum“ og verður opin þar til forskráningu lýkur á fimmtudag kl.13. Nánari upplýsingar um sveitakeppnina má finna hér.

Hlaupahópar og þátttakendalisti

Hér getur þú fundið lista yfir skráða þátttakendur í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2018. Athugaðu þó að ekki vildu allir láta nafn sitt birtast á skráningarlista en ekki er hægt að komast hjá því að nöfn þátttakenda birtist í úrslitum að hlaupi loknu. Ef þú vilt breyta þessari stillingu á þinni skráningu getur þú gert það á „mínum síðum“ undir aðgerðir og vefupplýsingar. Á sama stað er einnig hægt að skrá hlaupahóp sem birtist á þátttakendalista og í úrslitum hlaupsins.

Nafnabreyting

Hægt er að gera nafnabreytingar á skráningum á „mínum síðum“ til kl.13 á fimmtudag. Athugið að hvorki er mögulegt að gera nafnabreytingar á skráningum á skráningarhátíð né á hlaupdag.

Breyting á vegalengdum

Þau sem vilja breyta um vegalengd geta gert það á „mínum síðum“. Greiða þarf fyrir mismun á verði vegalengda ef farið er í lengri vegalengd. Ekki þarf að greiða breytingagjald. Einnig er hægt að gera breytingar á vegalengd á skráningarhátíðinni í Laugardalshöll.

Hlaupastyrkur.is

Áheitavefur Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka er hlaupastyrkur.is. Allir sem eru skráðir á hlaupastyrkur.is geta skráð sig inn hér á vefnum til að uppfæra mynd, texta og áheitamarkmið sitt. Þeir sem vilja hlaupa til góðs en hafa enn ekki stofnað aðgang geta gert það hér. Opið verður fyrir skráningu áheita til miðnættis mánudaginn 20.ágúst.

Deila þessari frétt
Samstarfsaðilar

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með fimm stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, Miðnæturhlaup Suzuki í júní, Norðurljósahlaup Orkusölunnar í febrúar og Reykjavíkurleikar í janúar.