Fullt af fjöri í skemmtiskokki
10. ágúst 2018

Í ár verður boðið uppá tvær skemmtiskokksvegalengdir í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka þar sem verður fullt af fjöri, tónlist, kraftmiklum skreytingum og magnaðri stemningu!

Þú getur valið um að skrá þig og þína í eftirfarandi ræsingar í skemmtiskokki:

  • 3 km kl.12:15 - JóiPé og Króli sjá um upphitun.
  • 600 m kl.13:30 - Leikhópurinn Lotta og Georg sjá um upphitun.
  • 600 m kl.14:30 - Leikhópurinn Lotta og Georg sjá um upphitun.

Allir skráðir þátttakendur fá bol og númer sem þarf að næla framan á sig í hlaupinu til að fá drykk og verðlaunapening þegar komið er í mark. Smelltu hér til að skrá þig og þína til þátttöku.

Einn fullorðinn einstaklingur má fylgja hverju barni í 600 m skemmtiskokkinu og þarf ekki að skrá eða greiða fyrir fylgdarmanninn. Mælst er til þess að öll börn 6 ára og yngri hafi með sér fullorðinn fylgdarmann í hlaupinu. Þau sem eru með börn í kerrum þurfa að byrja aftast til að koma í veg fyrir troðning og gefa þeim sem vilja hlaupa tækifæri til að spretta úr spori.

Í 3 km skemmtiskokkinu er tímataka og fá allir þátttakendur í þeirri vegalengd tímatökuflögu sem þeir þurfa að festa í skóreimarnar ef þeir vilja fá tímann skráðan. Að loknu hlaupi verða birt heildarúrslit í stafrófsröð án flokkunar eftir kynjum eða aldri. Þau er hugsað til hvatningar fyrir hvern og einn en ekki út frá keppni.

Forskráning í skemmtiskokk er í fullum gangi hér á rmi.is en henni lýkur klukkan 13:00 fimmtudaginn 16.ágúst. Einnig verður hægt að skrá sig við afhendingu gagna í Laugardalshöll en þá er þátttökugjaldið 20% hærra og því borgar sig að forskrá á netinu.

Í skemmtiskokki fæst afsláttur fyrir börn og unglinga ef skráðir eru saman amk einn fullorðinn og tvö börn eða fleiri. Fullorðinn og eitt barn borga fullt gjald en afsláttur af þátttökugjaldi annarra barna og unglinga er 700 krónur. Börn eru skilgreind sem 19 ára og yngri þ.e. fædd 1999 og síðar. Sjá nánar í verðskrá.

Deila þessari frétt
Samstarfsaðilar

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með fimm stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, Miðnæturhlaup Suzuki í júní, Norðurljósahlaup Orkusölunnar í febrúar og Reykjavíkurleikar í janúar.