Mikilvægar upplýsingar fyrir hlaupara
17. ágúst 2018

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2018 er á morgun! Hér höfum við tekið saman mikilvæg atriði fyrir hlaupara.

Dagskrá

Eftirfarandi er dagskrá morgundagsins í Lækjargötu

8:40 Maraþon og hálfmaraþon
9:35 10 km hlaup
12:15 3 km skemmtiskokk
13:30 600 m skemmtiskokk - fyrri ræsing - gul númer
14:30 600 m skemmtiskokk - seinni ræsing - appelsínugul númer
16:10 Tímatöku hætt

Við hvetjum alla til að koma tímanlega í bæinn á morgun. Miðbærinn verður að stórum hluta lokaður vegna Menningarnætur og einnig verða truflanir á umferð vegna hlaupsins. Hér má sjá allar upplýsingar um truflun á umferð á morgun vegna Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka og hér kort af lokunum vegna Menningarnætur. 

Varúð - viðgerðir, framkvæmdir og umferð

Þar sem hlaupaleiðin er ekki alveg lokuð fyrir bílaumferð er mikilvægt að hlauparar sýni aðgát við umferðargötur. Einnig er hlaupið á göngu og hjólastígum þar sem hlauparar geta átt von á bæði gangandi og hjólandi vegfarendum. 

Á marksvæði verður ræst á báðum akreinum þrátt fyrir að framkvæmdir þrengi lítillega að. Í maraþoninu þarf að sýna sértaka aðgát á stíg meðfram Suðurlandsbraut milli Álfheima og Skeiðarvogs því þar eru malarkaflar. Vinsamlegast farið varlega á þessum slóðum.  

Hlaupaleið í maraþoni er örlítið breytt á milli ára. Á lokametrunum er haldið áfram út Geirsgötuna, Kalkofnsveg og inn Lækjargötu, í staðin fyrir að beygja inn Tryggvagötuna eins og áður. 10 km hlauparar beygja inn Tryggvagötuna en fara síðan Naustin, Hafnarstrætið, Pósthússtrætið og Austurstrætið. Ný leið er í 3km skemmtiskokki, þátttakendur eru vinsamlegast beðnir um að kynna sér hana vel. 

Smellið hér til að skoða kort af hlaupaleiðum.​

Stærra marksvæðið

Mikilvægt er að allir hlauparar kynni sér skipulag á marksvæðinu í Lækjargötu hér.

Vekjum sérstaklega athygli á því að maraþon og hálfmaraþonhlauparar verða leiddir inná nýtt lokað marksvæði í portinu hjá gamla Miðbæjarskólanum þar sem þeir geta jafnað sig að hlaupi loknu. Boðið verður uppá mjúkar jógateygjur í íþróttasalnum á 2.hæð í skólanum þar sem jógakennararnir Inga og María frá Iceland Power Yoga leiðbeina. Þau sem keyptu sér nudd fá þá þjónustu í búningsklefum á 1.hæð.

Einnig skal bent á að útgangur úr marksvæði fyrir 10 km hlauparar er við Fríkirkjuna. Sjá nánar hér.

Skila þarf tímatökuflögum til starfsmanna hlaupsins að loknu hlaupi. Við hvetjum þau sem eru að nota slíkar flögur í fyrsta sinn til að kynna sér hvernig þær virka hér.​

Samgöngur

Frítt verður í Strætó allan daginn á morgun og hvetjum við hlaupara til að nýta sér það ef þeir geta. Oft geta þeir sem koma á bíl lagt við Háskóla Íslands en einnig getur verður góður kostur fyrir þá að nýta sér sérstaka skutluþjónusta Strætó sem starfrækt verður frá kl.7:30. Skutlurnar munu ganga frá Laugardalshöll að Hallgrímskirkju með viðkomu í Borgartúni og á Hlemmi. Sjá nánar á vef Menningarnætur.

Hraðahólf og hraðastjórar

Við upphaf hlaups í Lækjargötu eru merkt svæði sem kallast hraðahólf. Mikilvægt er að allir þátttakendur staðsetji sig í því hólfi sem hentar þeirra hraða til að koma í veg fyrir þrengsli í upphafi, árekstra og frammúrtöku á fyrstu kílómetrunum. Mikilvægt er að þeir sem eru í hjólastól eða ætla að fara rólega eða gangandi byrji aftast. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar og myndir af hraðahólfunum. 

Hraðastjórar munu hlaupa maraþon, hálft maraþon og 10 km á ákveðnum jöfnum hraða. Hraðastjórar verða í merktum vestum og með blöðrur. Hér getur þú séð á hvaða tímum hraðastjórarnir ætla að hlaupa. Kannski hentar þér að fylgja hraðastjóra til að ná þínum hraðamarkmiðum. 

Úrslit

Á morgun verður hægt að fylgjast með gengi hlaupara í tímatökuvegalengdunum í næstum því beinni útsendingu hér á rmi.is. Um er að ræða bráðabirgðaúrslit sem síðan munu birtast staðfest á vefnum um kl.17. 

Myndir

Að lokum minnum við þig á að líta upp og brosa þegar þú ferð yfir marklínuna svo að ljósmyndarar hlaupsins geti náð góðri mynd af þér. Hægt verður að skoða og kaupa myndir frá hlaupinu á vefnummarathon-photos.com.

Gangi ykkur vel og góða skemmtun!

Deila þessari frétt
Samstarfsaðilar

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með fimm stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, Miðnæturhlaup Suzuki í júní, Norðurljósahlaup Orkusölunnar í febrúar og Reykjavíkurleikar í janúar.