Ný hlaupaleið í maraþoni

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2019 fer fram laugardaginn 24.ágúst. Í hlaupinu er hægt að velja á milli fimm vegalengda, allt frá 600 m skemmtiskokki til maraþons. Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á hlaupaleiðinni í maraþoni milli ára til að bæta stemningu og auka upplifun hlaupara. 

Nýja leiðin er mjög fjölbreytt og er nú einn hringur en ekki hlaupin að hluta til sama leiðin tvisvar eins og áður. Þetta er mikill kostur fyrir hlaupara. Þá liggur brautin nú meira í gegnum íbúagötur borgarinnar. Eins og áður er farið í gegnum íbúahverfi í vesturbæ og á Seltjarnarnesi, en einnig hlaupið í gegnum Túnin, Teigana, inn í Laugardalinn, um Vogana og inn í Bryggjuhverfið. 

Í staðin fyrir að halda áfram meðfram ströndinni og aftur út á Seltjarnarnes eru síðustu kílómetrarnir farnir meðfram Öskjuhlíðinni, í gegnum Þingholtin, Skólavörðuholt, út á Sæbraut fram hjá Hörpu og aftur inn í Lækjargötu. 

Frábær stemning hefur verið á 10 km brautinni undanfarin ár  eins og margir þekkja. Standa vonir til að með þessum breytingum skapist meiri stemning á maraþon brautinni líka og að íbúar borgarinnar komi út og hvetji hlauparana áfram.

Maraþonið hefst eins og aðrar vegalengdir Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka í Lækjargötu fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík. Hægt er að kynna sér nánar um hvaða götur og stíga hlaupaleiðin liggur hér.

Breytingarnar á hlaupaleiðinni voru unnar í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg og lögregluna. Einnig hafa fulltrúar hlaupara komið að vinnunni og er mikil ánægja með hvernig til hefur tekist. 

Maraþonhlauparar með Hallgrímskirkju í bakgrunn

Deila þessari frétt
Samstarfsaðilar
 • Íslandsbanki
 • Adidas
 • Suzuki
 • ÍTR
 • Avis
 • Margt smátt
 • Promennt
 • 66 Norður
 • Kynnisferðir / Reykjavik Excursions
 • Korta
 • Fulfil
 • Garmin
 • Bændaferðir / Hey Iceland
 • Gatorade

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með fimm stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, Miðnæturhlaup Suzuki í júní, Norðurljósahlaup Orkusölunnar í febrúar og Reykjavíkurleikar í janúar.