Maraþon
Maraþonhlauparar að fara af stað úr Lækjargötu

Fyrsta Reykjavíkurmaraþonið fór fram árið 1984 en þá tóku 56 þátt í maraþon vegalengdinni. Árið 2018 voru 1.522 hlauparar skráðir til þátttöku í maraþon Reykjavíkurmaraþons.

Maraþon er 42,195 km langt og er það vegalengdin sem boðberi nokkur er sagður hafa hlaupið með skilaboð um sigur í bardaganum við Maraþon frá þeirri borg til Aþenu. Sagan segir að hann hafi ekkert stansað á leiðinni og hafi látist um leið og hann skilaði af sér boðunum.

Þátttakendur

Allir sem náð hafa 18 ára aldri geta skráð sig og tekið þátt í maraþoni Reykjavíkurmaraþons. Ekki er mælt með því að óvanir hlauparar taki þátt í þessari vegalengd enda ekki á allra færi að hlaupa rúma 42 kílómetra. Athugið að tímamörk í hlaupinu eru 7 klukkustundir og 30 mínútur. 

Skráning

Skráning í maraþon fer fram á vef Reykjavíkurmaraþons en einnig er hægt að skrá sig á skráningarhátíð hlaupsins. Athugið þó að þátttökugjald hækkar eftir því sem nær dregur hlaupi og því borgar sig að skrá sig tímanlega. Smellið hér til að fá nánari upplýsingar um skráningu í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka. Þátttakendum í 10 km, 21,1 km og 42,2 km er ekki heimilt að hafa meðferðis kerrur eða vagna.

Íslandsmeistaramót

Allir Íslendingar sem skrá sig til þátttöku í maraþon eru sjálfkrafa skráðir þátttakendur í Íslandsmeistaramótið í maraþoni. Frjálsíþróttasamband Íslands veitir fyrstu Íslendingum í maraþoni sérstök verðlaun og krýna Íslandsmeistara.

Leiðin

Hlaupið hefst eins og aðrar vegalengdir Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka í Lækjargötu fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík. Hlaupaleiðin í maraþoninu er mjög skemmtileg og fjölbreytt. Byrjað er á því að hlaupa meðfram Tjörninni og síðan farið í gegnum íbúahverfi í vesturbæ og á Seltjarnarnesi. Þá er einnig hlaupið í gegnum Túnin, Teigana og inn í Laugardalinn. Um Vogana, Elliðaárdal, Bryggjuhverfið, Fossvogsdal, meðfram Öskjuhlíðinni, í gegnum Þingholtin, Skólavörðuholt, út á Sæbraut fram hjá Hörpu og aftur inn í Lækjargötu.

Hlaupið er um eftirfarandi götur og stíga: 

Lækjargata, Fríkirkjuvegur, Skothúsvegur, Suðurgata, Lynghagi, Ægisíða, Nesvegur, Suðurströnd, Lindarbraut, Norðurströnd, Eiðisgrandi, Ánanaust, Fiskislóð og út á Hólmaslóð þar sem er snúið við. Grandagarð, Mýrargata, Geirsgata, Kalkofnsveg, Sæbraut í austur, Sæbraut í vestur, inn Katrínartún (Höfðatún), Miðtún, niður Hátún, austur göngustíg í Sóltúni og meðfram Kringlumýrarbraut. Yfir göngubrú, inná Hofteig, yfir Reykjaveg og inn á göngustíg í Laugardalnum (Þvottalaugaveg), austur á göngustíg meðfram Engjavegi og göngustíg meðfram Suðurlandsbraut. Inn Skeiðarvog, Langholtsveg, Gnoðarvog, Skeiðarvog, austur göngustíg meðfram Suðurlandsbraut, göngubrú yfir Miklabraut og göngustíg meðfram Miklubraut. Undir Reykjanesbraut, göngustíg yfir á Rafstöðvarveg í norður, inn á göngustíg meðfram Bíldshöfða í vestur, göngustígur meðfram Knarrarvogi, Súðarvogi, Naustavogi og yfir göngubrýr við Elliðaárvoginn. Á göngustíg meðfram Sævarhöfða í austur, Tangabryggja, göngustígur fyrir aftan Naustabryggju, Naustbryggja og Sævarhöfði í suður. Rafstöðvarvegur í suður, inn á göngustíg yfir Elliðaár, undir Reykjanesbraut og allan Fossvogsdal. Fyrir neðan kirkjugarðinn er farið inn á hjólreiðastíg, meðfram Öskjuhlíðinni, undir Flugvallarveg og fylgja göngustíg meðfram Flugvallarvegi og vestur göngustíg meðfram Bústaðarveg. Göngubrú yfir Hringbraut, meðfram Vatnsmýrarveg og yfir gömlu Hringbrautina. Bergstaðastræti, Skólavörðustígur, Grettisgata í austur, Barónsstígur í norður, Skúlagata í vestur, Sæbraut í vestur, Kalkofnsvegur og Lækjargata. 

Hlaupaleiðin er mæld samkvæmt stöðlum AIMS (alþjóðleg samtök hlaupa) og viðurkennd af Frjálsíþróttasambandi Íslands.

Smellið hér til að skoða kort af hlaupaleiðinni.

Drykkjarstöðvar

Á um það bil fjögurra kílómetra fresti eru drykkjarstöðvar. Þar er boðið upp á Powerade íþróttadrykk og vatn. Keppendum í maraþoni er einnig boðið upp á banana á drykkjarstöðvum á seinni helming leiðarinnar. Í Lækjargötu, við endamarkið, er einnig drykkjarstöð og þar er maraþonhlaupurum auk þess boðið uppá saltkringlur. Á kortum af hlaupaleiðum má sjá staðsetningar drykkjarstöðva á leiðinni.

Tímataka

Sjálfvirk tímataka er í maraþoninu og þurfa allir sem taka þátt að hafa tímatökuflögu fasta í skóreimunum til að fá skráðan tíma. Smellið hér til að skoða nánari upplýsingar um tímatöku.

Verðlaun

Allir hlauparar sem koma í mark fá verðlaun. Í maraþoni er auk þess veitt verðlaunafé til fyrstu þriggja karla og kvenna ásamt fleiri glæsilegum verðlaunum. Sjá nánar hér.

Aldursflokkar

Keppt er í fimm aldursflokkum karla og kvenna og fær fyrsti hlaupari í hverjum flokki verðlaun. Sjá nánar hér.

Sendu okkur póst á [email protected] ef þig vantar nánari upplýsingar um maraþonið.

Kort af marþonleiðinni

Samstarfsaðilar

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með fimm stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, Miðnæturhlaup Suzuki í júní, Norðurljósahlaup Orkusölunnar í febrúar og Reykjavíkurleikar í janúar.