Hlaupastyrkur

Góðgerðarmál

Samtök áhugafólks um spilafíkn

Samtals Safnað

0 kr.

Fjöldi áheita

0

Árið 2019 tók sig saman hópur áhugafólks um málefni spilafíkla og stofnaði Samtök áhugafólks um spilafíkn, SÁS. Í rúm fjögur ár hefur fólkið á bak við samtökin haft það að leiðarljósi að vekja fólk og stjórnvöld til umhugsunar varðandi spilakassa og rekstur slíkrar starfsemi.

Í þessu skyni hafa samtökin beitt sér fyrir heiðarlegri og opinskárri umræðu um skaðsemi spilakassa. Einnig hafa þau bent á að um sé að ræða mjög afmarkaðan hóp einstaklinga sem misst hafa stjórn á spilafíkn sinni og þar með orðið undirstaðan í því fjármagni sem er að skila sér í spilakassa.

Fyrsta stóra verkefni samtakanna var viðhorfskönnun sem framkvæmd var af Gallup í maí á síðasta ári. Niðurstöður þeirrar viðhorfskönnunar voru afgerandi og kom þar meðal annars í ljós að 86% íslensku þjóðarinnar vill að spilakassar verði áfram lokaðir eftir Covid-19 og þá til frambúðar. Einnig kom í ljós að mjög lítill hópur Íslendinga spilar í spilakössum að staðaldri. Einungins 0,3% landsmanna höfðu farið í spilakassa oftar en ellefu sinnum á síðustu tólf mánuðum.

Þetta staðfesti það sem við hjá SÁS höfum haldið fram; að ekki er um að ræða skemmtilegan leik né fjáröflun. 
      Það sem lagt var upp með þegar leyfi voru veitt til reksturs spilakassa var að lítlar fjárhæðir kæmu frá mörgum, ekki allt frá örfáum. Þar með staðfestist einnig að undirstaða laganna sem veita heimild til reksturs spilakassa er brostin.

Fljótlega eftir lokun spilakassa í mars 2020 kom í ljós að þeir spilafíklar sem spiluðu í spilakössum leituðu ekki annað, þvert á fullyrðingar rekstraraðila og ráðherra, heldur fóru þessir einstaklingar heim og urðu virkir þátttakendur í eigin lífi, ástvina sinna og í samfélaginu.

Það er því ljóst að lokun spilakassa hefur svo mikil áhrif – jákvæð áhrif – á líf svo margra einstaklinga, fjölskyldna og ástvina að opnun spilakassa aftur er ekki með nokkru móti réttlætanleg!

Enginn getur allt einn en öll getum við sameinast í að gera eitthvað sem máli skiptir!

Samtök áhugafólks um spilafíkn er stór hópur fólks sem ákvað að byrja og gera eitthvað. Bara eitthvað til að breyta, breyta fyrir stóran hóp fólks og ástvina sem hafa ekki haft rödd. Taka slaginn við virt og mikilsmetin samtök. Samtök sem eiga að starfa í almannaþágu. Þetta er stór slagur og því þarf alla með; að allir leggi sitt á vogarskálarnar.

Við getum þetta – um það erum við alveg sannfærð. Við getum aflað fjár á siðferðislegan og ábyrgan hátt, sem veldur ekki litlum hópi í samfélagi okkar skaða og jafnvel tekur líf. Það þarf bara að hugsa málið upp á nýtt en til að það geti orðið þurfum við að breyta og þess vegna er svo mikilvægt að allir taki afstöðu og krefjist lokunar á spilakössum.

Spilakassar eru tímaskekkja og taka frá okkur lífsgæði en veita þau ekki. Við vissum að þetta væri líkt og Davíð gegn Golíat en við vitum líka að um leið og fólk áttar sig og skilur hverskonar starfsemi á sér stað bak við myrka glugga að þá muni allir bregðast við ákalli okkar: Lokum spilakössum og búum til betra samfélag fyrir börnin okkar og afkomendur!

Í stjórn SÁS sitja:

Alma Hafsteinsdóttir, formaður SÁS
Sigurbergur Ármannsson, gjaldkeri
Svava Benediktsdóttir
Örn Sverrisson
Kristján Jónasson
Kristín Adda Einarsdóttir
Ingimar Jónsson

Styrktaraðilar

  • Íslandsbanki
  • Corsa
  • Suzuki
  • ÍTR
  • 66 Norður
  • Kynnisferðir / Reykjavik Excursions
  • Gatorade