Hlaupastyrkur

Góðgerðarmál

Pepp Ísland - grasrót fólks í fátækt

Samtals Safnað

0 kr.

Fjöldi áheita

0

Samtökin, hver erum við:
Samtök okkar, EAPN á Íslandi (European Anti Poverty Network)ásamt grasrótarstarfinu okkar sem kallast: Pepp Ísland, grasrótarstarf fólks í fátækt og félagslegri einangrun, hafa unnið ötullega að því frá árinu 2012 að vekja athygli á málum þessa hóps bæði gagnvart stjórnvöldum og út í samfélagið ásamt því að hrinda af stað ýmsum völdum verkefnum sem hafa miðað að því að minnka matarsóun og valdefla fólk sem býr við fátækt með jafningjafræðslu, virkri þátttöku, markvissu hópastarfi, málþingum o.fl. Að samtökunum okkar standa: Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn, ÖBÍ, Sjálfsbjörg, Samhjálp, Félag einstæðra foreldra, Hagsmunasamtök heimilanna, Kærleiksþjónusta kirkjunnar og Velferðarsjóður Suðurnesja en formaður samtakanna er Vilborg Oddsdóttir.

Starfið síðustu árin:
Fyrir utan ýmsa íslenska og evrópska verkefnavinnu höfum við haldið reglulega samráðsfundi, málefnafundi og málþing og höfum við eldað dýrindis máltíðir úr útrunnum mat á fundum okkar til að tryggja að þeir sem til okkar sækja fái örugglega máltíð þann daginn og að loknum fundum fá þátttakendur alla afganga með sér heim. Þetta hefur gengið ótrúlega vel þrátt fyrir að við höfum ekki alltaf haft fasta staðsetningu á fundunum þar sem við höfðum lengi ekki yfir húsnæði að ráða.

Covid áhrifin:
Síðan kom Covid og við gátum ekki lengur boðið upp á fundi með sameiginlegum máltíðum en í ljós kom að ákveðinn hluti þess hóps sem til okkar sótti, stólaði á að fá mat frá okkur og þegar almennt hjálparstarf lá niðri vegna Covid, bitnaði það illa á þessu fólki. Við brugðumst við því með að gefa þeim þann mat sem við annars hefðum eldað úr, ef af fundi hefði orðið.
Covid varð því til þess að til okkar fór að sækja stærri hópur fólks í sárafátækt; barnmargar láglauna-fjölskyldur, hælisleitendur, eldri borgarar, einstæðir foreldrar og öryrkjar.Flest þeirra eru á almennum leigumarkaði og hafa ekki tekjur sem gerir þeim kleyft að leigja, kaupa lyf og framfleyta sér og börnum sínum og eru því að leita allra ráða til að afla sér matar.

Sumarið 2020 og verkefnið Sumarsamvera:
Sumarið var þessum hópi mjög erfitt, ekki síst í kjölfar covid en einnig vegna þess hve mörg bjargráð loka yfir sumarið og það sem er í boði kostar peninga, peninga sem þessar fjölskyldur eiga ekki til.
Við sóttum því um og fengum styrk frá Reykjavíkurborg með það að markmiði að rjúfa félagslega einangrun jaðarhópa samfélagsins og opnuðum Sumarsamveru en Sumarsamvera var 8 vikna verkefni, ókeypis kaffihús, sett á laggirnar til að tryggja að enginn þyrfti að neita sér um að kíkja í kaffi og hitta annað fólk þó buddan væri tóm.
Við fengum lánað húsnæði, keyptum matvæli og fengum sjálfboðaliða sem þekkja fátækt á eigin skinni til að sjá um starfsemina. Opið var alla virka daga á milli kl 11 og 15 og boðið upp á kaffi og te, brauð og álegg, kleinur og sætabrauð, ávexti, safa og barnamat fyrir þau yngstu.
Þetta framtak vatt heldur betur upp á sig og þrátt fyrir 2 metra reglur og sóttvarnir hafa verið að mæta allt að 116 manns í kaffi yfir daginn og fjöldi manns vitnar um að með hlýju, skilningi og jákvæðni hafi okkur tekist að bjarga þeim frá örvæntingu, einmanaleika og hungri og það er hreint ekki svo lítið afrek.

Hvað er framundan:
Hjálpræðisherinn, sem lánaði okkur húsnæði sitt í Mjóddinni yfir sumarið leigði okkur húsnæðið sem þeir voru með í Mjódd og þar höfum við rekið miðstöð fólks í fátækt. Þannig getum við haldið áfram að nýta þann velvilja og þá reynslu sem Sumarsamvera færði okkur og haldið áfram að vinna með fólkinu sem til okkar hefur leitað, fólki í fátækt og félagslegri einangrun.
Auk þess að opna miðstöð fólks í fátækt og félagslegri einangrun höfum við verið með skipulagt starf sem snýr að því að koma einstaklingum úr einangrun og vanvirkni í virkni, efla sjálfstraust með markvissu uppbyggilegu starfi og unnið að virku notendasamráði á öllum sviðum sem snúa að þessum málaflokki með jákvæðni að vopni og lausnarmiðaðri hugsjón.

Samfélagið er þú og ég- við erum samfélagið:
Til að samfélag virki verður það að rúma alla. Það þýðir að við sem höfum vald til að láta að okkur kveða verðum að skapa rými fyrir þá sem eru valdalausir, þá sem hafa ekki rödd út í samfélagið eða eru jaðarsettir á einhvern hátt því með samvinnu áorkum við svo miklu meiru en sitt í hverju lagi.
Þess vegna þurfum við Pepp, þess vegna þurfum við miðstöð fólks í fátækt.

Hverjir eru Pepparar:
Pepparar eru hópur fólks sem þekkir fátækt og félagslega einangrun á eigin skinni og er virkt í starfi samtakanna. Pepparar vinna að því að efla samstöðu innan fólks í fátækt á jákvæðan og lausnarmiðaðan hátt, byggja upp gott félagsstarf og vera talsmenn þessa hóps út í samfélagið.
Takmark Peppara er valdefling einstaklinga úr fátækt með þátttöku, virkni, jákvæðni og samvinnu ásamt því að starfa náið með félagasamtökum, sveitarfélögum og stjórnvöldum að breytingum í samfélaginu til að auka þátttöku okkar í samfélaginu og til að hafa bein áhrif á þær ákvarðanir samfélags og yfirvalda sem að okkur snúa.

Svona nærðu sambandi við okkur:

EAPN á Íslandi
kt: 610212-0420
Álfabakka 12
109 Reykjavík

Sími kaffistofu: 845 4010
Sími skrifstofu 587 8686
Netfang: peppari@internet.is

Með kærleikskveðju
Ásta Þórdís Skjalddal
Stjórnarmaður EAPN og
samhæfingarstjóri Pepp .

Styrktaraðilar

  • Íslandsbanki
  • Corsa
  • Suzuki
  • ÍTR
  • 66 Norður
  • Kynnisferðir / Reykjavik Excursions
  • Gatorade