Tímataka

Sjálfvirk tímataka er í 3 km skemmtiskokki, 10 km, hálfmaraþoni og maraþoni. Notaður verður tímatökubúnaður frá MyLaps sem samanstendur af mottum í rásmarki sem hlauparar fara yfir í byrjun og enda hlaups en tímatökuflagan er innbyggð í hlaupanúmerinu hjá hverjum og einum.

Allir þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka fá hlaupanúmer sem festa þarf framan á bolinn áður en hlaupið hefst. Öryggisnælur fylgja með til að festa númerið.

Tímataka verður í maraþoni, hálfmaraþoni, 10 km hlaupi og 3 km skemmtiskokki. Tímatökuflagan sem mælir tíma þátttakenda í þessum vegalengdum er innbyggð í hlaupanúmerinu. Hlauparar þurfa því ekki að festa sérstaka tímatökuflögu í skóreimarnar eins og í mörgum öðrum hlaupum.

Mjög mikilvægt er að brjóta númerið ekki saman til að skemma ekki tímatökuflöguna. Einnig þarf að passa að festa númerið örugglega framan á bolinn og hafa það vel sýnilegt, sérstaklega þegar farið er yfir tímatökumotturnar.

Tímatökumottur verða staðsettar í markinu og á nokkrum völdum stöðum á hlaupaleiðinni. Tímatakan hefst þegar startskot ríður af og lýkur þegar hlaupari kemur í mark og kallast sá tími byssutími. Einnig er mældur svokallaður flögutími frá því hlaupari fer yfir mottuna í byrjun hlaups til að gefa honum nákvæman persónulegan tíma, óháð því hve aftarlega í hópnum hann var við ræsingu. Byssutíminn er sá tími sem gildir til úrslita í hlaupinu eins og alþjóðlegar reglur um lögleg götuhlaup segja til um.

Millitímamottur verða staðsettar á 6 stöðum á leiðinni: við 10 km, 16 km, 20 km, 25 km, 30 km og 37,2 km. Þar fá keppendur skráðan millitíma svo framarlega sem þeir fara yfir mottuna.

Flögutímann fá allir sem skrá farsímanúmerið sitt við skráningu sendan með sms skilaboðum stuttu eftir að þeir koma í mark. Hægt er að bæta við eða breyta skráðu farsímanúmeri á "mínum síðum".

Hér á rmi.is verða lifandi úrslit á hlaupdag. Um er að ræða óstaðfest úrslit og millitíma sem uppfærð eru á u.þ.b 10 sekúndna fresti (uppfærslutími gæti verið eitthvað lengri á álagstímum). Staðfest úrslit munu liggja fyrir um kl. 17.00 á hlaupdag.

Sérfræðingar frá Tímataka.net sjá um tímatökuna í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka.

Styrktaraðilar

  • Íslandsbanki
  • Corsa
  • Suzuki
  • ÍTR
  • 66 Norður
  • Kynnisferðir / Reykjavik Excursions
  • Gatorade