Kæru hlauparar, góðgerðarfélög, starfsmenn og áhorfendur,
Við hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur viljum færa öllum okkar innilegu þakkir fyrir frábæran dag í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Við erum þakklát þeim fjölmörgu sem tóku þátt í undirbúningi, störfuðu með okkur og studdu við bakið á viðburðinum. Sjálfboðaliðar frá íþróttafélögum, starfsmenn og aðrir sem leggja hönd á plóg ár eftir ár eru ómetanlegir og gera okkur kleift að skapa öruggt og ánægjulegt umhverfi fyrir þátttakendur.
Aldrei hafa fleiri tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoni en skráðir hlauparar í ár voru 17.786, sem er rúmlega 3.000 fleiri en í fyrra. Þrátt fyrir bæði sól og skúrir var stemningin í miðbænum ólýsanleg og áhorfendur hvöttu hlaupara áfram af mikilli gleði.
Í ár tóku yfir 16.500 hlauparar þátt í hlaupinu sjálfu og safnaðist fyrir rúmlega 180 góðgerðarfélög. Í ár söfnuðust yfir 326 milljónir króna í tengslum við hlaupið, sem er metupphæð frá upphafi Hlaupastyrks. Það er okkur sérstakt gleðiefni að heildarsöfnun hlaupastyrkur.is hefur nú farið yfir 2 milljarða frá því að söfnunin hófst árið 2006.
Það sem tekur nú við er endurmat og frágangur. Við erum stöðugt að leita leiða til að bæta upplifun allra sem taka þátt í hlaupinu og bregðast við ört vaxandi fjölda þátttakenda. Við hvetjum ykkur eindregið til að svara viðhorfskönnun hlaupsins, því þannig getum við saman gert viðburðinn enn betri að ári.
Við hlökkum strax til næsta hlaups, sem fer fram laugardaginn 22. ágúst á næsta ári.
Kærar þakkir fyrir samveruna í ár og verið dugleg að hlaupa í vetur.
Með bestu kveðju,
Hrefna Hlín Sveinbjörnsdóttir
Hlaupstjóri Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka.