Metþátttaka í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2025!

23. ágúst 2025

Met aðsókn var í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka sem fór fram í dag. Það skiptist á skini og skúrum en glaðir hlauparar létu ekki rigninguna á sig fá. Skráðir þátttakendur í dag voru 17.786 sem eru rúmlega 3000 fleiri en á síðasta ári. Gríðarlega mikil stemning var í miðbænum og fögnuðu áhorfendur vel og mikið fyrir þreyttum hlaupurum sem komu í mark.

Leikar fóru þannig að í maraþoni kvenna sigraði Diana Diana Aleksandrova frá Rússlandi á tímanum 02:35:51 sem er nýtt brautarmet í maraþoni kvenna en hún sló metið sem hefur staðið síðan 1996. Í öðru sæti var Julia Mueller frá Bandaríkjunum og í þriðja sæti var Melissah Kate Gibson frá Bretlandi. Fljótasta íslenska konan í maraþoninu var Halldóra Ingvarsdóttir á tímanum 03:13:17 og var þar með Íslandsmeistari í maraþoni kvenna.

Í maraþoni karla sigraði Portúgalinn José Sousa annað árið í röð á tímanum 02:23:55, í öðru sæti var Hlynur Andrésson frá Íslandi og var þar með Íslandsmeistari í maraþoni karla. Í þriðja sæti var Silviu Stoica frá Rúmeníu en hann vann hlaupið árið 2023.

Í hálfmaraþoni kvenna sigraði Elísa Kristinsdóttir á tímanum 01:18:32 en í öðru sæti var Íris Anna Skúladóttir þriðja sæti var Fanney Þorbjörg Guðmundsdóttir.

Í hálfmaraþoni karla sigraði Dagur Benediktsson á tímanum 01:12:52, í öðru sæti var Daníel Ágústsson og í þriðja sæti var Jón Kristófer Sturluson.

Í hálfmaraþoni í kváraflokki sigraði Elle Gallagher frá Írlandi á tímanum 01:45:31, í öðru sæti var Erla Karítas Blöndal og í þriðja sæti var Ace Murphy frá Bretlandi.

Í 10 kílómetra hlaupi kvenna sigraði Arndís Ýr Hafþórsdóttir á tímanum 39:00, í öðru sæti var Fríða Rún Þórðardóttir og í þriðja sæti var Katla Rut Robertsdóttir Kluvers.

Í 10 kílómetra hlaupi karla sigraði Baldvin Þór Magnússon á tímanum 29:34, í öðru sæti var Mateo Dahmani frá Frakklandi og í þriðja sæti var Viktor Orri Pétursson.

Í 10 kílómetra hlaupi í kváraflokki sigraði Carlos Luis Rangles frá Ekvador, í öðru sæti var Aró Berg Jónasar og í þriðja sæti var Elísabet Skagfjörð.

Það var einnig haldið skemmtiskokk, þar sem að hlauparar gátu hlaupið 1,7km eða 3km og hlupu ungir sem aldnir braut fulla af furðuverum, boðið var upp á froðudiskó, tónlistaratriði og var stemningin gríðarlega mikil.

Söfnunarmet var slegið í dag á hlaupastyrkur.is en þegar þetta er ritað hafa safnast yfir 310.942.789 milljónir króna sem er magnaður árangur og þetta þýðir það að heildarsöfnun á hlaupastyrkur.is er komin yfir 2 milljarða síðan að söfnunin hófst árið 2006. Ennþá hægt að heita á góð málefni fram á miðnætti, mánudaginn 25. ágúst.
Íþróttabandalag Reykjavíkur þakkar þátttakendum, samstarfsaðilum, áhorfendum, starfsfólki, sjálfboðaliðum og öllum þeim sem tóku þátt í að skapa þennan frábæra viðburð.


Myndir: Anton Brink Hansen

Styrktaraðilar

  • Íslandsbanki
  • Corsa
  • Suzuki
  • ÍTR
  • 66 Norður
  • Gatorade