Þátttaka fór fram úr björtustu vonum í hlaupinu í ár

18. ágúst 2023

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fór fram í 38. sinn í frábæru hlaupaveðri í dag. Margir lögðu leið sína í miðbæ Reykjavíkur til að styðja við hlaupara og stemningin var hreint útsagt frábær. Til þátttöku voru skráðir 11.307 hlauparar á öllum aldri frá 84 löndum. 5766 konur skráðu sig, 5483 karlmenn og 12 kvár, en í ár var í fyrsta sinn hægt að skrá sig í þrjá kynjaflokka.

Sigurvegari í maraþoni í kvennaflokki var Andrea Kolbeinsdóttir á tímanum 02:42:15 sem er frábær árangur en á eftir henni komu þær Jessica Roach frá Bandaríkjunum í 2. sæti og Kristjána Pálsdóttir í 3. sæti. Í maraþoni í karlaflokki sigraði Rúmeninn Silviu Stoica á tímanum 02:29:27 sem er einnig frábær árangur en á eftir honum komu þeir Ernest Kibet Tarus frá Kenýa í 2.sæti og Bart Geldof frá Belgíu í 3. sæti

Maraþonið var jafnframt Íslandsmeistaramót og sigraði Andrea Kolbeinsdóttir í kvennaflokki og Sigurjón Ernir Sturlurson í karlaflokki

Í ár var keppt í fyrsta sinn í kvárflokki í 10 kílómetrum og sigraði Elías Rúni á tímanum 01:03:55 en í öðru sæti var Jóhanna Rakel og í því þriðja var Sunneva Kristín Sigurðardóttir.

Áheitasöfnun hlaupsins á hlaupastyrkur.is er enn í fullum gangi og verður opin til miðnættis á mánudaginn 21.ágúst. Þegar er búið að slá áheitametið sem sett árið 2019 og eru áheitin komin í 190 milljónir sem öll þau sem söfnuðu áheitum og hétu á hlaupara geta verið stolt af.

Íþróttabandalag Reykjavíkur þakkar hlaupurum, samstarfsaðilum, starfsmönnum, hvatningarfólki og tillitssömum vegfarendum kærlega fyrir góðan dag.

Myndir: Eva Björk

Styrktaraðilar

  • Íslandsbanki
  • Corsa
  • Suzuki
  • ÍTR
  • 66 Norður
  • Kynnisferðir / Reykjavik Excursions
  • Gatorade