Uppskeruhátíð Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka 2023

4. október 2023

Hlauparar sem söfnuðu mest: Gunnar Örn Hilmarsson, Rúnar Maríno Ragnarsson og Elías Guðmundsson(f.h. Lárus Welding)

Uppskeruhátíð áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons 2023 fór fram í dag. Aðalstyrktaraðili hlaupsins, Íslandsbanki, bauð til hátíðarinnar í höfuðstöðvum sínum í Norðurturni. Á uppskeruhátíðinni komu saman fulltrúar góðgerðafélaga, hlauparar, starfsmenn og stuðningsaðilar til að fagna góðum árangri áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka sem fram fór á vefnum hlaupastyrkur.is.

Í ár söfnuðu hlauparar 199.932.170 krónum. Heildarupphæð áheita sem hafa safnast í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka frá því áheitasöfnun hófst árið 2006 er nú komin í rúmlega 1.443 milljónir. Þeir hlauparar sem söfnuðu mest fengu viðurkenningu á áheitahátíðinni í gær.

Lárus Welding safnaði mest allra einstaklinga, 3.155.000 krónur fyrir Krýsuvíkursamtökin. Rúnar Marinó Ragnarsson safnaði næst mest, 1.842.684 krónur fyrir Kraftur - Stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Í þriðja sæti einstaklinga var Gunnar Örn Hilmarsson sem safnaði 1.464.519 krónum einnig fyrir Einstök Börn Stuðningsfélag. Sá hlaupahópur sem safnaði mestu var “Boss HHHC" en þeir söfnuðu 7.696.499 krónum fyrir Kraftur - Stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

Hlaupahópurinn BOSS HHC var verðlaunaður fyrir frábæra söfnun

155 góðgerðarfélög söfnuðu áheitum í ár, en áheitin hafa verið greidd til góðgerðafélaganna. Öll áheit sem bárust fara beint til félaganna því Íslandsbanki greiðir allan kostnað við söfnunina. Þau félög sem fengu mestu í ár eru Ljósið - endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda sem safnaði 19.933.770 krónur, Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur safnaði 18.987.445 og Gleym-mér-ei styrktarfélag safnaði 9.605.036 krónur.

Frá vinstri: Hólmfríður Anna Baldursdóttir(Gleym-mér-ei styrktarfélag, Elín Skúladóttir(Kraftur) og Erna Magnúsdóttir(Ljósið)

Styrktaraðilar

  • Íslandsbanki
  • Corsa
  • Suzuki
  • ÍTR
  • 66 Norður
  • Kynnisferðir / Reykjavik Excursions
  • Gatorade